Önnur kraftaverk
38 Einhverju sinni, þegar hungursneyð var í landinu, kom Elísa til Gilgal. Þegar lærisveinar spámannanna sátu frammi fyrir honum sagði hann við þjón sinn: „Settu stóra pottinn yfir og eldaðu mat handa lærisveinum spámannanna.“ 39 Þá fór einn þeirra út í hagann til að safna jurtum og fann villta vafningsjurt. Hann tíndi af henni svo mikið af villtum gúrkum sem rúmaðist í kápulafi hans. Þegar heim kom skar hann þær í bita og setti í pottinn en þeir þekktu þær ekki. 40 Þegar ausið var upp handa mönnunum til að eta og þeir smökkuðu á réttinum hrópuðu þeir: „Dauðinn er í pottinum, guðsmaður.“ Og þeir gátu ekki neytt matarins. 41 En Elísa sagði: „Komið með mjöl.“ Hann kastaði því í pottinn og sagði: „Ausið upp handa fólkinu svo að það geti etið.“ Nú var ekkert lengur skaðlegt í pottinum.
42 Einu sinni kom maður frá Baal Salísa og færði guðsmanninum tuttugu byggbrauð, frumgróðabrauð. Dálítið af nýju korni hafði hann einnig í poka sínum. Elísa sagði: „Gefðu fólkinu þetta.“ 43 „Hvernig get ég gefið þetta hundrað mönnum?“ svaraði þjónn hans. En hann sagði: „Gefðu fólkinu þetta að eta því að svo segir Drottinn: Þeir munu eta og leifa.“ 44 Síðan bar hann þetta fyrir þá og þeir átu og leifðu eins og Drottinn hafði sagt.