22 Sjötta daginn söfnuðu þeir helmingi meira en hina dagana, tveimur gómerum á mann. Þegar allir leiðtogar fólksins komu og tjáðu Móse það 23 sagði hann við þá: „Þetta er það sem Drottinn sagði: Á morgun er hvíld, heilagur hvíldardagur fyrir Drottin. Bakið það sem þið þurfið að baka og sjóðið það sem þið þurfið að sjóða. En allt sem eftir verður skuluð þið leggja til hliðar og geyma til næsta morguns.“ 24 Þeir lögðu það til hliðar til næsta morguns eins og Móse hafði skipað og það fúlnaði hvorki né skriðu í það maðkar. 25 Þá sagði Móse: „Etið það í dag því að í dag er hvíldardagur fyrir Drottin. Í dag finnið þið þetta ekki úti á víðavangi. 26 Í sex daga skuluð þið safna því saman en sjöunda daginn er hvíldardagur, þá finnið þið ekkert.“
27 Sjöunda daginn gengu samt nokkrir út til að safna en fundu ekkert.
28 Drottinn sagði við Móse: „Hve lengi ætlið þið að neita að halda fyrirmæli mín og lög? 29 Reynið að skilja að Drottinn hefur gefið ykkur hvíldardaginn og þess vegna gefur hann ykkur brauð til tveggja daga sjötta daginn. Haldið kyrru fyrir, hver á sínum stað. Enginn má fara að heiman sjöunda daginn.“ 30 Þannig hélt fólkið hvíldardaginn sjöunda daginn.
31 Ísraelsmenn nefndu þetta manna. Það var hvítt eins og kóríanderfræ og eins og hunangskaka á bragðið.