9 Þá sagði Móse við Aron: „Segðu við allan söfnuð Ísraelsmanna: Gangið fram fyrir auglit Drottins því að hann hefur hlustað á mögl ykkar.“ 10 Á meðan Aron talaði til alls safnaðar Ísraelsmanna sneru þeir sér í áttina að eyðimörkinni. Þá birtist þeim skyndilega dýrð Drottins í skýi. 11 Drottinn ávarpaði Móse og sagði: 12 „Ég hef heyrt mögl Ísraelsmanna. Talaðu til þeirra og segðu: Ísraelsmenn, áður en dimmt er orðið munuð þið fá kjöt til matar og á morgun seðjist þið af brauði. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn, Guð ykkar.“
13 Um kvöldið komu lynghænsn og þöktu búðirnar en morguninn eftir hafði dögg fallið umhverfis búðirnar. 14 Þegar döggin þornaði lá eitthvað fínkornótt yfir eyðimörkinni líkt og héla. 15 Þegar Ísraelsmenn sáu það spurðu þeir hver annan: „Hvað er þetta?“ því að þeir vissu ekki hvað það var. Þá sagði Móse við þá: „Þetta er brauð sem Drottinn hefur gefið ykkur til matar. 16 Fyrirmælin, sem Drottinn hefur gefið, eru þessi: Safnið því sem hver þarf til matar, einum gómer á mann og skal hver um sig safna í samræmi við þann fjölda sem býr í tjaldi hans.“ 17 Þetta gerðu Ísraelsmenn og söfnuðu sumir miklu en aðrir litlu. 18 Þegar þeir mældu það í gómermáli gekk ekkert af hjá þeim sem miklu safnaði og þann sem litlu safnaði skorti ekkert. Sérhver hafði safnað því sem hann þurfti til matar. 19 Þá sagði Móse við þá: „Enginn má leifa neinu til morguns.“ 20 Þeir hlustuðu ekki á Móse og nokkrir leifðu dálitlu til næsta morguns. En það maðkaði og fúlnaði og Móse reiddist þeim.
21 Þeir söfnuðu morgun eftir morgun því sem hver þurfti til matar en það bráðnaði þegar sólskinið varð sem heitast.