Manna og lynghænur

1 Því næst lögðu þeir af stað frá Elím. Allur söfnuður Ísraelsmanna kom inn í Síneyðimörkina, sem er milli Elím og Sínaí, á fimmtánda degi annars mánaðarins eftir brottför þeirra úr Egyptalandi. 2 Þá möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna gegn Móse og Aroni í eyðimörkinni 3 og sagði við þá: „Betra væri okkur að við hefðum fallið fyrir hendi Drottins í Egyptalandi þegar við sátum við kjötkatlana, þegar við átum okkur södd af brauði. En þið hafið leitt okkur út í þessa eyðimörk til þess að láta allan þennan söfnuð farast úr hungri.“
4 Þá sagði Drottinn við Móse: „Nú ætla ég að láta brauði rigna af himni handa ykkur. Fólkið á að ganga út og safna saman dag hvern því sem það þarf fyrir daginn. Þannig get ég reynt það og séð hvort það fylgir lögum mínum eða ekki. 5 En þegar þeir mæla það sem þeir koma með heim á sjötta degi verður það helmingi meira en það sem þeir safna hina dagana.“
6 Þá sögðu Móse og Aron við alla Ísraelsmenn: „Í kvöld munuð þið skilja að það var Drottinn sem leiddi ykkur út úr Egyptalandi 7 og á morgun fáið þið að sjá dýrð Drottins af því að hann hefur hlustað á mögl ykkar gegn Drottni. En hverjir erum við úr því að þið möglið gegn okkur?“ 8 Og Móse hélt áfram: „Þegar Drottinn gefur ykkur kjöt að eta í kvöld og brauð að seðja ykkur á að morgni er það af því að Drottinn hefur hlustað á mögl ykkar gegn honum. Hverjir erum við? Þið möglið ekki gegn okkur heldur Drottni.“