Höfundur: Þórhallur Eyþórsson.
Ekki var fyrr búið að kristna germanskar þjóðir en þær hófu að þýða guðsorð á tungur sínar. Þannig hefst faðirvorið í Íslenskri Hómilíubók frá því um 1200: Faðir vor, er ert á himnum, helgist nafn þitt. Svona er bænin á fornháþýsku (um 830): Fater unser, thu thar bist in himile, si geheilagot thin namo. Hér er loks upphafið á faðirvorinu á fornensku (um 990): Fæder ure þu þe eart on heofonum, si þin nama gehalgod.
Burtséð frá guðfræðinni er þessi texti áhugaverður fyrir málfræðinga. Mikil líkindi voru með germönskum málum til forna og því sennilegt að þeir sem töluðu þau hafi getað skilið hverjir aðra auðveldlega þótt málin hafi breyst í tímans rás, enska mest og íslenska og þýska einna minnst. Okkur Íslendingum veitist tiltölulega létt að botna í forngermönskum textum, ekki síst ef við kunnum eitthvað í þýsku nútímamáli, en auðvitað þarf að huga að einstaka atriðum sem ber í milli. Þannig samsvarar ísl. himinn fornensku heofon en fornháþýsku himil, sbr. heaven á ensku nútímamáli og Himmel á þýsku. Til forna höfðu bæði þýska og enska forskeyti eins og ge- á undan sumum sögnum (ge heilagot, ge halgod). Norræn mál misstu þessi forskeyti á elstu tíð og enska gerði það líka síðar. Þess vegna segjum við helgast og enskumælandi fólk hallow en þýska heldur enn fast í forskeytin: Geheiligt werde dein Name ‘helgt verði þitt nafn.’
Bókmenntir germanskra þjóða ná raunar langt aftur í aldir þótt ekki væru þær ritaðar fyrr en eftir kristnitökuna. Endurómur af þessari eldfornu munnlegu sagnahefð hljómar í eddukvæðum, t.d. í frásögum um Sigurð Fáfnisbana og fleiri kempur. Á meðal þeirra eddukvæða sem eiga elstar rætur eru textar um atburði sem gerðust með Gotum og Húnum: Hamðismál, Guðrúnarhvöt og Hlöðskviða. Síðastnefnda kvæðið fjallar um styrjöld Gota við hina illræmdu Húna, sem ruddust austan úr Asíu á 4. öld e.Kr. Gotar voru fyrir sitt leyti líklega upprunnir í Svíþjóð en dreifðust um Evrópu allt suður að Svartahafi. Þeir ortu væntanlega sjálfir ljóð um hetjudáðir sínar þótt ekkert af þeim kveðskap hafi varðveist. Hins vegar snerust þeir snemma til kristni og æruverðugur biskup þeirra snaraði biblíunni á gotnesku um árið 380. Hann hét Wulfila (‘Litli-Úlfur’) og það sem eftir er af textanum er varðveitt í handriti sem nefnist Silfurbiblían. Tungumál Gota er ærið fornlegt en samt er ekki torvelt fyrir þá sem kunna íslensku að stauta sig fram úr því. Svona hljóðar upphaf faðirvorsins á gotnesku: Atta unsar, þu in himinam, weihnai namo þein ‘Pabbi okkar, þú á himnum, vígist nafn þitt.’ Annars er dálítið sérstakt að gotneska faðirvorið byrjar á orðinu atta sem merkir ‘pabbi’. Gotar ávörpuðu guð oftast með þessu gæluyrði þótt þeir hafi raunar líka þekkt orðið fadar sem samsvarar ísl. faðir. Hvers vegna þeir gerðu það er efni í annan pistil.
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu, 15. maí 2021.