6 Þið hafið tekið á móti Kristi, Drottni Jesú. Lifið því í honum. 7 Verið rótfest í honum og byggð á honum, staðföst í trúnni, eins og ykkur hefur verið kennt, og auðug að þakklátsemi.
8 Gætið þess að láta engan hertaka ykkur með marklausu, villandi spekitali sem byggist á mannasetningum og er komið frá heimsvættunum en ekki frá Kristi. 9 Í manninum Jesú býr öll fylling guðdómsins 10 og þið hafið öðlast hlutdeild í fullkomnun hans sem er höfuð hvers kyns tignar og valds.
11 Í honum eruð þið umskorin þeirri umskurn sem ekki er með höndum gerð. 12 Með umskurn Krists voruð þið afklædd hinum synduga líkama, greftruð með Kristi í skírninni og uppvakin til lífs með honum fyrir trúna á mátt Guðs sem vakti hann frá dauðum.
13 Þið voruð dauð sökum afbrota ykkar og umskurnarleysis. En Guð lífgaði ykkur ásamt honum þegar hann fyrirgaf okkur öll afbrotin. 14 Hann afmáði skuldabréfið sem þjakaði okkur með ákvæðum sínum. Hann tók það burt með því að negla það á krossinn. 15 Hann fletti vopnum tignirnar og völdin og leiddi þau fram opinberlega til háðungar þegar hann fór sína sigurför í Kristi.