Gáfur andans

1 En svo ég minnist á gáfur andans, systkin,[ þá vil ég ekki að þið séuð fáfróð um þær. 2 Þið vitið að þegar þið voruð heiðingjar létuð þið leiða ykkur til mállausra skurðgoðanna rétt eins og verkast vildi. 3 Þess vegna læt ég ykkur vita að enginn, sem talar af Guðs anda, segir: „Bölvaður sé Jesús!“ og enginn getur sagt: „Jesús er Drottinn!“ nema af heilögum anda.
4 Mismunur er á náðargjöfum en andinn er hinn sami, 5 mismunur er á þjónustustörfum en Drottinn hinn sami. 6Mismunur er á framkvæmdum en Guð hinn sami sem öllu kemur til leiðar í öllum. 7 Þannig birtist andinn sérhverjum manni til þess að hann geri öðrum gagn. 8 Einum gefur andinn gáfu að mæla af speki, öðrum gefur sami andi kraft að mæla af þekkingu. 9 Sami andi veitir einum trú, öðrum lækningagáfu 10 og öðrum kraft til að framkvæma undur. Einn fær spádómsgáfu, annar hæfileika að sannreyna anda, einn að tala tungum og annar að útleggja tungutal. 11 Öllu þessu kemur eini og sami andinn til leiðar og hann útbýtir hverjum einum eftir vild sinni.