14 Forðist þess vegna skurðgoðadýrkun, mín elskuðu. 15 Ég tala til ykkar sem skynsamra manna. Metið sjálf það sem ég segi. 16 Bikar blessunarinnar sem vér blessum, er hann ekki samfélag um blóð Krists? Og brauðið sem vér brjótum, er það ekki samfélag um líkama Krists? 17 Af því að brauðið er eitt, erum vér hin mörgu einn líkami því að vér eigum öll hlutdeild í hinu eina brauði.
18 Lítið á Ísraelsmenn. Taka þeir sem eta fórnarkjötið ekki þátt í altarisþjónustunni? 19 Hvað segi ég þá? Að kjöt fórnað skurðgoðum sé nokkuð? Eða skurðgoð sé nokkuð? 20 Nei, skurðgoðadýrkendur blóta illum öndum, ekki Guði. En ég vil ekki að þið hafið samfélag við illa anda. 21 Ekki getið þið drukkið bikar Drottins og bikar illra anda. Ekki getið þið tekið þátt í borðhaldi Drottins og borðhaldi illra anda. 22 Eða eigum við að reita Drottin til reiði? Munum við vera máttugri en hann?