Elía og Ahasía konungur

1 Eftir lát Akabs gerði Móab uppreisn gegn Ísrael.
2 Ahasía féll í gegnum handriðið á efri hæð húss síns í Samaríu og meiddist. Hann sendi þá menn með þessi fyrirmæli: „Farið og leitið svara hjá Baal Sebúb, guðinum í Ekron, um það hvort ég muni ná mér eftir þessi meiðsli.“ 3 En engill Drottins hafði sagt við Elía frá Tisbe: „Farðu af stað og haltu til móts við sendimenn Samaríukonungs og segðu við þá: Er enginn Guð í Ísrael fyrst þið farið til þess að leita svara hjá Baal Sebúb, guðinum í Ekron? 4 En þar sem þið gerið það segir Drottinn: Þú skalt ekki framar rísa úr rekkjunni, sem þú ert lagstur í, því að þú skalt deyja.“ Elía hélt síðan á brott.
5 Þegar sendimennirnir komu aftur til konungs spurði hann: „Hvers vegna eruð þið komnir aftur nú þegar?“ 6 Þeir svöruðu: „Maður kom á móti okkur og sagði: Farið aftur til konungsins, sem sendi ykkur, og segið: Svo segir Drottinn: Sendir þú sendiboða til þess að leita svara hjá Baal Sebúb, guðinum í Ekron, af því að enginn guð er í Ísrael? Þar sem þú gerðir það skaltu ekki framar rísa úr rekkjunni, sem þú ert lagstur í, því að þú skalt deyja.“ 7 Þá spurði konungur: „Hvernig leit maðurinn út sem kom á móti ykkur og sagði þetta við ykkur?“ 8 Þeir svöruðu: „Hann var í skinnfeldi og gyrtur leðurbelti um lendar sér.“ „Þetta hefur verið Elía frá Tisbe,“ sagði konungur.