11 Nú spyr ég: Hrösuðu þá Ísraelsmenn til þess að falla að fullu? Fjarri fer því. Fall þeirra varð heiðingjum hjálpræði. Það átti að vekja afbrýði hjá Gyðingum. 12 Hafi fall þeirra orðið heiminum auður og ófarir þeirra heiðingjum auður, hve miklu mun þá muna þegar þeir koma allir með tölu?

Rótin og greinarnar

13 En við ykkur, heiðingjar, segi ég: Nú er ég einmitt postuli heiðingja og þá þjónustu vegsama ég. 14 Vera mætti að ég gæti vakið afbrýði hjá ættmennum mínum og frelsað einhverja þeirra. 15 Fyrst það varð sáttargjörð fyrir heiminn að þeim var hafnað, hvað verður þá upptaka þeirra annað en líf af dauðum? 16 Ef frumgróðinn er heilagur er einnig deigið það. Og ef rótin er heilög eru einnig greinarnar það.
17 En þótt nokkrar af greinunum hafi verið brotnar af og hafir þú sem ert villiolíuviður verið græddur inn í þeirra stað og fáir með öðrum greinum að njóta rótarsafa olíuviðarins, 18 skaltu ekki stæra þig gegn hinum. Ef þú gerir það skaltu vita að þú berð ekki rótina heldur rótin þig. 19 Þú kannt þá að segja: „Greinarnar voru brotnar af til þess að ég yrði græddur við.“ 20 Rétt er það, þær voru brotnar af vegna vantrúar en vegna trúar þinnar stenst þú. Hreyktu þér ekki upp, varaðu þig heldur. 21 Hafi Guð ekki þyrmt hinum náttúrulegu greinum mun hann ekki heldur þyrma þér. 22 Sjá hér bæði gæsku Guðs og strangleika. Hann er strangur við þá sem féllu en gæskuríkur við þig ef þú treystir áfram gæsku hans. Annars verður þú einnig af höggvinn. 23 En hinir verða og græddir við, ef þeir láta af vantrú sinni, því að megnugur er Guð þess að græða þá við á ný. 24 Þú varst höggvinn af þeim villta olíuviði sem þú ert að eðli til sprottinn af og varst gagnstætt eðli náttúrunnar græddur við ræktaðan olíuvið. Hve miklu fremur munu þá þessar náttúrulegu greinar verða græddar við sinn eigin olíuvið?