Árin þúsund

1 Og ég sá engil stíga niður af himni. Hann hélt á lykli undirdjúpsins og stórum fjötri í hendi sér. 2 Og hann tók drekann, þann gamla höggorm, sem er djöfull og Satan, og batt hann um þúsund ár. 3 Hann kastaði honum í undirdjúpið, læsti því og setti innsigli yfir svo að hann leiddi ekki framar þjóðirnar afvega uns þúsund ár væru liðin. Eftir það á hann að vera leystur um stuttan tíma.
4 Og ég sá hásæti og menn settust í þau og þeim sem þar sátu var gefið vald til að dæma. Ég sá sálir þeirra sem höfðu verið hálshöggnir af því að þeir höfðu vitnað um Jesú og flutt orð Guðs. Það voru þeir sem höfðu hvorki tilbeðið dýrið né líkneski þess og ekki fengið merki á enni sér og hönd. Og þeir lifnuðu og ríktu með Kristi um þúsund ár. 5 Aðrir dauðir lifnuðu ekki fyrr en þúsund árin voru liðin. Þetta er fyrri upprisan. 6 Sælir og heilagir eru þeir sem eiga hlut í fyrri upprisunni. Yfir þeim hefur hinn annar dauði ekki vald heldur munu þeir vera prestar Guðs og Krists og ríkja með honum um þúsund ár.

Satan sigraður

7 Þegar þúsund árin eru liðin verður Satan leystur úr fangelsi sínu. 8 Og hann mun fara og leiða þjóðirnar Góg og Magóg, á fjórum skautum jarðarinnar, afvega og safna þeim saman til stríðs og fjöldi þeirra er sem sandur sjávarins. 9 Þær stigu upp á víðan völl jarðar og umkringdu herbúðir heilagra og borgina elskuðu. En eldur féll af himni ofan og eyddi þeim. 10 Og djöflinum, sem leiðir þær afvega, var kastað í díkið elds og brennisteins, þar sem bæði dýrið og falsspámaðurinn eru. Þau verða kvalin dag og nótt um aldir alda.