Elía á Hóreb
1 Akab sagði Jesebel frá öllu sem Elía hafði gert og að hann hefði drepið alla spámennina með sverði. 2 Jesebel sendi þá mann til Elía með þessi skilaboð: „Guðirnir geri mér hvað sem þeir vilja, nú og héðan í frá, hafi ég ekki um þetta leyti á morgun farið með líf þitt líkt og líf eins af spámönnunum.“ 3 Elía varð hræddur, bjó sig til ferðar og flýði til að bjarga lífi sínu. Er hann kom til Beerseba í Júda skildi hann þjón sinn þar eftir.
4 Sjálfur hélt hann eina dagleið inn í eyðimörkina. Þar settist hann undir einiberjarunna og óskaði þess eins að deyja og mælti. „Mál er nú, Drottinn, að þú takir líf mitt því að ég er engu betri en feður mínir.“ 5 Síðan lagðist hann þar fyrir og sofnaði. En skyndilega kom engill, snerti hann og sagði: „Rís upp og matast.“ 6 Hann litaðist um og sá þá glóðarbakað brauð og vatnskrukku við höfðalag sitt. Hann át og drakk og lagðist síðan fyrir aftur.
7 Þá kom engill Drottins öðru sinni, snerti hann og sagði: „Rís upp og matast. Annars reynist þér leiðin of löng.“ 8Hann reis upp, át og drakk. Endurnærður af máltíðinni gekk hann í fjörutíu daga og fjörutíu nætur þar til hann kom að Hóreb, fjalli Guðs.