Vínviðurinn og greinarnar

1 „Ég er hinn sanni vínviður og faðir minn er vínyrkinn. 2 Hverja þá grein á mér sem ber ekki ávöxt sníður hann af og hverja þá sem ávöxt ber hreinsar hann svo að hún beri meiri ávöxt. 3 Þér eruð þegar hrein vegna orðsins sem ég hef talað til yðar. 4 Verið í mér, þá verð ég í yður. Greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér nema hún sé á vínviðnum. Eins getið þér ekki heldur borið ávöxt nema þér séuð í mér. 5 Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt sem er í mér og ég í honum en án mín getið þér alls ekkert gert. 6 Hverjum sem er ekki í mér verður varpað út eins og greinunum og hann visnar. Þeim er safnað saman og varpað á eld og brennt. 7 Ef þér eruð í mér og orð mín eru í yður, þá biðjið um hvað sem þér viljið og yður mun veitast það. 8 Með því vegsamast faðir minn að þér berið mikinn ávöxt og verðið lærisveinar mínir.