4 Heyr, Ísrael. Drottinn, Guð vor, Drottinn er einn. [ 5 Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.
6 Þessi orð, sem ég boða þér í dag, skulu vera þér hugföst. 7 Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum. Þú skalt hafa þau yfir þegar þú situr heima og þegar þú ert á faraldsfæti, þegar þú leggst til svefns og þegar þú ferð á fætur. 8 Þú skalt binda þau sem tákn á hönd þína og hafa þau sem merki milli augna þinna. 9 Þú skalt skrifa þau á dyrastafi húss þíns og borgarhlið þín.
10 Drottinn, Guð þinn, mun leiða þig inn í landið sem hann sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakobi, að gefa þér, land með stórum og fögrum borgum sem þú byggðir ekki, 11 með húsum fullum af alls kyns góðum hlutum sem þú safnaðir ekki, úthöggnum brunnum sem þú hjóst ekki, víngörðum og ólífutrjám sem þú gróðursettir ekki. Þegar þú matast og verður mettur, 12 gæt þess þá að þú gleymir ekki Drottni sem leiddi þig út úr Egyptalandi, úr þrælahúsinu. 13 Þú skalt óttast Drottin, Guð þinn, þú skalt þjóna honum og sverja við nafn hans.
14 Þið skuluð ekki fylgja öðrum guðum, ekki neinum af guðum þjóðanna sem búa umhverfis ykkur 15 því að Drottinn, Guð þinn, sem er með þér, hann er vandlátur Guð. Reiði Drottins, Guðs þíns, gæti blossað upp gegn þér og hann kynni að afmá þig af yfirborði jarðar. 16 Þið skuluð ekki reyna Drottin eins og þið reynduð hann við Massa.[
17 Þið eigið að halda fyrirmæli Drottins, Guðs ykkar, í einu og öllu, lög þau og ákvæði sem hann hefur sett ykkur. 18 Þú skalt gera það sem rétt er og gott í augum Drottins svo að þér vegni vel og þú komist inn í og fáir til eignar landið góða sem Drottinn hét feðrum þínum. 19 Drottinn mun ryðja öllum fjandmönnum úr vegi þínum eins og hann hefur heitið.