27 „Hversu lengi á þessi vondi söfnuður að mögla gegn mér? Ég hef heyrt mögl Ísraelsmanna gegn mér. 28 Segðu við þá: Svo sannarlega, sem ég lifi, segir Drottinn, mun ég fara með ykkur eins og þið hafið sjálfir talað í eyru mín að ég muni gera. 29 Lík ykkar munu liggja eftir hér í þessari eyðimörk, ykkar allra sem voruð taldir, ykkar allra með tölu, tuttugu ára og eldri, lík ykkar sem hafið möglað gegn mér. 30 Enginn ykkar skal koma inn í landið, sem ég sór með upplyftri hendi að þið skylduð búa í, enginn nema Kaleb Jefúnneson og Jósúa Núnsson. 31 En börn ykkar, sem þið sögðuð að yrðu tekin herfangi, mun ég leiða þangað. Þau munu kynnast landinu sem þið hafið forsmáð 32en lík ykkar munu liggja eftir hér í þessari eyðimörk. 33 Synir ykkar verða hjarðmenn í eyðimörkinni í fjörutíu ár og gjalda fráfalls ykkar þar til lík ykkar allra liggja í eyðimörkinni. 34 Þið könnuðuð landið í fjörutíu daga og þið skuluð gjalda misgjörðar ykkar í fjörutíu ár, eitt ár fyrir hvern dag. Þannig skuluð þið komast að raun um hvað það þýðir að fá mig á móti sér. 35 Ég, Drottinn, hef talað. Sannarlega mun ég fara svona með þennan vonda söfnuð sem gerði samblástur gegn mér: Hér í þessari eyðimörk skulu þeir láta lífið, hér skulu þeir deyja.“