Finnska biblíufélagið gaf út nýja finnska þýðingu á Nýja testamentinu í október 2020 eftir tæplega þriggja ára þýðingarvinnu. Þýðingin hefur vinnuheitið UT2020 (Uusi testamentti 2020) Markmið þýðingarinnar var að notendur á öllum aldri gætu lesið eða hlustað á þýðinguna í símunum sínum. Fulltrúar allra kirkjudeilda sem starfa í Finnlandi hafa fagnað textanum, sem sé sannarlega samkirkjulegur.

Að sögn Dr. Seppo Sipilaa, ráðgjafa Sameinuðu biblíufélaganna í þýðingum, þá byggir UT2020 á nýjum hugmyndum um þýðingar þar sem áherslan er lögð á skilning þess sem les og/eða hlustar á textann.

Terhi Huovari starfsmaður Finnska biblíufélagsins bendir á að biblíuþýðingar hafi fram til þessa verið gerðar með prentaðan texta í huga, sem síðan hafi verið dreift á stafrænan hátt á netinu. UT2020 snúi þessari nálgun við. Textinn hafi verið þýddur með það í huga fyrst og fremst að hann sé sem aðgengilegastur fyrir stafræna notendur.

Jákvæð viðbrögð

„Viðbrögð við UT2020 sýnir okkar að Biblían skiptir enn máli í finnsku þjóðfélagi“ segir Dr. Markku Kotila framkvæmdastjóri Finnska biblíufélagsins. Hann bendir á að fjallað hefur verið ítarlega um þýðingarverkefnið í finnskum fjölmiðlum. Fyrstu tvær vikurnar eftir að verkefninu lauk var nýja þýðingin sótt 100.000 sinnum á vefsíðu Finnska biblíufélagsins, http://www.raamattu.fi. Þá hefur notkun á appi Finnska biblíufélagsins aukist mikið í kjölfar nýju þýðingarinnar.

Hefðbundið finnskt málfar

Eitt helsta einkenni UT2020 þýðingarinnar er notkun á hefðbundnu finnsku málfari. Forngríski textinn sem Nýja testamentið er skrifuð á, notar að mestu hefðbundið mál þess tíma, en fornt málfar sé lítt notað í upphaflega textanum. „Jesús notaði ekki trúarlegt tungutak og hátimbruð hugtök,“ bendir Dr. Markku réttilega á.

Því var lagt upp með að nota eðilegt og hefðbundið málfar við þýðinguna, en þess jafnframt gætti að draga ekki úr fjölbreytni og blæbrigðum málsins. Þannig var leitast við að ná fram stílbrigðum og markmiðum frumtextans án þess að notast við trúarlegt tungutak eða forn orð sem ekki eru notuð í finnsku hversdagsmáli. „Eitt markmiðanna var að hægt yrði að lesa textann án þess að þurfa að grípa í orðabók, gúggla eða hringja í guðfræðing“, segir Terhi.

Einfalt dæmi um þetta er finnska orðið vanhurskas (ísl. réttlæti) en það var fyrst notað í biblíuþýðingu á 17. öld, og hefur verið notað mikið í guðfræðilegum samræðum. Orðið kemur hins vegar hvergi fyrir á finnsku í öðru samhengi en guðfræðilegu. Vanhurskas er því ekki notað í UT2020. Þess í stað er horft til samhengisins og notast við orðin sanngirni, réttur og sakleysi.

Nýja þýðingin horfir einnig sérstaklega til orða Jesús. Jesús hefur í UT2020 mun skýrari rödd en í fyrri þýðingum og mikið er lagt upp úr að draga úr þeim hátíðleika sem þýðendur liðina alda hafa bætt við orð Jesús.

Flæði textans og málskilningur

Aðrir þættir sem hugað var að sneru að textaflæðinu og hversu auðvelt væri að lesa og flytja textann. „Það hefur verið yndislegt [að lesa textann],“ segir Krista Kosonen leikkona sem var fengin til að lesa inn á hljóðbókina. „Þetta hefur verið róandi verkefni. … Sögurnar eru sannar og fallegar. Þær opna hjartað.“

Þýðendur horfðu sérstaklega til orðaforða og málskilnings ungs fólks á aldrinum 15-25 ára. Til að aðstoða við verkefnið sköpuðu þýðendur ímyndaða ríflega tvítuga manneskju, sem var kölluð Elísa og spurðu sig reglulega meðan unnið var að verkefninu, „hvað finnst Elísu um þessa þýðingu?“

Á lokametrum verkefnisins unnu þýðendur með viðmótshönnuðum í framsetningu textans á símaskjám og vefvöfrum. Þá var einstökum hlutum textans dreift til einstaklinga meðan á þýðingunni stóð til að fá viðbrögð við þýðingunni. Alls bárust Finnska biblíufélaginu nærri 3000 athugasemdir frá almenningi, sem nýttust við endanlega framsetningu textans.

(Byggt á frétt frá Finnska biblíufélaginu 31. mars 2021)