Ekki þrælar heldur börn

1 Með öðrum orðum: Alla þá stund sem erfinginn er ófullveðja er enginn munur á honum og þræli þótt hann eigi allt. 2 Hann er undir fjárhaldsmönnum og ráðsmönnum til þess tíma er faðirinn hefur ákveðið. 3 Þannig vorum við einnig, er við vorum ófullveðja, í ánauð heimsvættanna. 4 En þegar fylling tímans kom sendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli – 5 til þess að hann keypti lausa þá sem voru undir lögmáli og við yrðum börn Guðs. 6 En þar eð þið eruð börn, þá hefur Guð sent anda sonar síns í hjörtu okkar sem hrópar: „Abba, faðir!“ 7 Þú ert þá ekki framar þræll heldur barn. En ef þú ert barn, þá hefur Guð líka gert þig erfingja.
8 Forðum, er þið þekktuð ekki Guð, voruð þið þrælar guða sem eru ekki neinir guðir. 9 En nú, eftir að þið þekkið Guð, eða réttara sagt, eftir að Guð þekkir ykkur, hvernig getið þið snúið aftur til hinna veiku og fátæklegu vætta? Viljið þið þræla undir þeim að nýju? 10 Þið haldið upp á ákveðna daga og mánuði, tíðir og ár. 11 Ég er hræddur um að ég kunni að hafa erfiðað hjá ykkur til ónýtis.