8 Þess vegna skaltu nú segja við þjón minn, Davíð: Svo segir Drottinn allsherjar: Ég sótti þig í haglendið þar sem þú gættir fjár og gerði þig að höfðingja yfir þjóð minni, Ísrael. 9 Ég hef verið með þér á öllum ferðum þínum og tortímt öllum óvinum þínum. Ég mun gera nafn þitt jafnfrægt nöfnum frægustu manna á jörðinni. 10 Ég mun fá þjóð minni, Ísrael, samastað og ég mun gróðursetja hana svo að hún geti búið þar örugg og óttalaus um alla framtíð. Ofbeldismenn skulu ekki kúga hana framar eins og fyrrum, 11 jafnvel eftir að ég setti dómara yfir þjóð mína, Ísrael. Ég veiti þér frið fyrir öllum óvinum þínum. Hér með kunngjörir Drottinn þér að hann muni reisa þér hús. 12 Þegar dagar þínir eru allir og þú hefur verið lagður til hvíldar hjá forfeðrum þínum mun ég gera son þinn, sem er getinn af þér, að eftirmanni þínum og ég mun styðja konungdóm hans. 13 Hann á að byggja nafni mínu hús og ég mun ævinlega styðja konunglegt hásæti hans. 14 Ég verð honum faðir og hann verður mér sonur. Þegar hann brýtur af sér mun ég hirta hann með höggum og slögum eins og tíðkast meðal manna. 15 Trúfesti mína skal ég ekki frá honum taka eins og frá Sál sem ég fjarlægði frá augliti mínu. 16 Ætt þín og konungdæmi skulu ævinlega standa fyrir augliti mínu. Hásæti þitt skal að eilífu stöðugt standa.“
17 Natan flutti Davíð öll þessi orð og alla þessa opinberun.