Að taka þátt í píslum Krists

12 Þið elskuðu, látið ykkur ekki undra eldraunina, sem yfir ykkur er komin, eins og eitthvað áður óþekkt hendi ykkur. 13 Gleðjist heldur er þið takið þátt í píslum Krists til þess að þið megið einnig gleðjast og fyllast fögnuði þegar dýrð hans birtist. 14 Sæl eruð þið þegar menn smána ykkur vegna nafns Krists. Andi dýrðarinnar, andi Guðs, hvílir þá yfir ykkur. 15 Ekkert ykkar líði sem manndrápari, þjófur eða illvirki eða fyrir að hlutast til um það er öðrum kemur við. 16 En ef einhver líður sem kristinn maður, þá fyrirverði hann sig ekki heldur vegsami Guð fyrir að bera nafn Krists.
17 Því að nú er kominn tími dómsins og hann byrjar á húsi Guðs. En ef hann byrjar á okkur, hver verða þá afdrif þeirra sem ekki hlýðnast fagnaðarerindi Guðs?
18Ef hinn réttláti naumlega frelsast,
hvað verður þá um hinn óguðlega og syndarann?

19 Þess vegna skulu þau sem líða í hlýðni við Guðs vilja fela sálir sínar á hendur hinum trúa skapara og halda áfram að gera hið góða.