5. kafli

Gerist ekki sljó

11 Um þetta höfum við langt mál að tala og ykkur torskilið af því að athygli ykkar er orðin sljó. 12 Þó að þið tímans vegna ættuð að vera kennarar, þá hafið þið þess enn á ný þörf að einhver kenni ykkur undirstöðuatriði Guðs orða. Svo er komið fyrir ykkur að þið hafið þörf fyrir mjólk en ekki fasta fæðu. 13 En hver sem á mjólk nærist er barn og skilur ekki boðskap réttlætisins. 14 Fasta fæðan er fyrir fullorðna, fyrir þá sem jafnt og þétt hafa agað hugann til að greina gott frá illu.

6. kafli

1 Þess vegna skulum við sleppa byrjendafræðslunni um Krist og snúa okkur að fræðslunni fyrir lengra komna. Við förum ekki að byrja aftur á undirstöðuatriðum eins og að trúa á Guð og hverfa frá breytni sem leiðir til dauða, 2kenningunni um skírnir[ og handayfirlagningar, upprisu dauðra og eilífan dóm. 3 Og þetta munum við gera ef Guð lofar.
4 Ef menn hafa eitt sinn verið upplýstir og notið hinnar himnesku gjafar, fengið hlutdeild í heilögum anda, 5 reynt Guðs góða orð og fundið krafta komandi aldar 6 en hafa síðan fallið frá, er ógerlegt að láta þá snúa við og iðrast. Þeir eru að krossfesta son Guðs að nýju og smána hann fyrir allra augum.
7 Jörð sú er drukkið hefur í sig regnið, sem á hana fellur hvað eftir annað, og ber gróður til gagns fyrir þá sem yrkja hana, fær blessun frá Guði. 8 En beri hún þyrna og þistla er hún ónýt. Yfir henni vofir bölvun og hennar bíður að lokum að verða brennd.