Grundvöllurinn er Kristur

1 Ég gat ekki, systkin,[ talað við ykkur eins og við andlega menn heldur eins og við menn sem sjá ekki nema sjálfa sig, eins og við ómálga börn í Kristi. 2 Ég gaf ykkur mjólk að drekka, ekki fasta fæðu því að enn þolduð þið það ekki. Og þið þolið það jafnvel ekki enn 3 því að enn þá lifið þið í sjálfshyggju. Það er metingur og deilur á milli ykkar. Sýnir það ekki að þið látið ekki andann leiða ykkur og hegðið ykkur eins og hverjir aðrir menn? 4 Þegar einn segir: „Ég fylgi Páli,“ en annar: „Ég fylgi Apollós,“ eruð þið þá ekki eins og þið voruð áður?
5 Hvað er þá Apollós? Já, hvað er þá Páll? Þjónar sem hafa leitt ykkur til trúar og það eins og Drottinn hefur gefið hvorum um sig. 6 Ég gróðursetti, Apollós vökvaði en Guð gaf vöxtinn. 7 Þannig skiptir það engu hver gróðursetur eða hver vökvar. Það er Guð sem skiptir máli, hann gefur vöxtinn. 8 Sá sem gróðursetur og sá sem vökvar eru eitt. En sérhver mun fá laun eftir erfiði sínu. 9 Því að samverkamenn Guðs erum við,[ Guðs akurlendi, Guðs hús eruð þið.