16 Þá seldi hann þeim hann í hendur og bauð að láta krossfesta hann.

Hermennirnir tóku þá við Jesú. 17 Og hann bar kross sinn og fór út til staðar sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata. 18 Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra hvorn til sinnar handar, Jesú í miðið. 19 Pílatus hafði látið gera yfirskrift og setja á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA. 20 Margir Gyðingar lásu þessa áletrun því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku. 21 Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: „Skrifaðu ekki konungur Gyðinga, heldur að hann hafi sagt: Ég er konungur Gyðinga.“
22 Pílatus svaraði: „Það sem ég hef skrifað það hef ég skrifað.“
23 Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr. 24Þeir sögðu því hver við annan: „Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um hver skuli fá hann.“ Svo rættist ritningin:
Þeir skiptu með sér klæðum mínum
og köstuðu hlut um kyrtil minn.

Þetta gerðu hermennirnir.
25 En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena. 26 Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ 27 Síðan sagði hann við lærisveininn: „Nú er hún móðir þín.“ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.

28 Jesús vissi að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann til þess að ritningin rættist: „Mig þyrstir.“
29 Þar stóð ker fullt af ediki. Hermennirnir vættu njarðarvött í ediki, settu hann á ísópslegg og báru að munni honum. 30 Þegar Jesús hafði fengið edikið sagði hann: „Það er fullkomnað.“ Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann.