14 Því að líkaminn er ekki einn limur heldur margir. 15 Ef fóturinn segði: „Fyrst ég er ekki hönd heyri ég ekki líkamanum til,“ þá er hann ekki fyrir það líkamanum óháður. 16 Og ef eyrað segði: „Fyrst ég er ekki auga heyri ég ekki líkamanum til,“ þá er það ekki þar fyrir líkamanum óháð. 17 Ef allur líkaminn væri auga, hvar væri þá heyrnin? Ef hann væri allur heyrn, hvar væri þá ilmanin? 18 En nú hefur Guð sett hvern einstakan lim á líkamann eins og honum þóknaðist. 19 Ef allir limirnir væru einn limur, hvar væri þá líkaminn? 20 En nú eru limirnir margir en líkaminn einn.
21 Augað getur ekki sagt við höndina: „Ég þarfnast þín ekki!“ né heldur höfuðið við fæturna: „Ég þarfnast ykkar ekki!“ 22 Nei, miklu fremur eru þeir limir á líkamanum nauðsynlegir sem virðast vera í veikbyggðara lagi. 23 Og þeim sem okkur virðast vera í óvirðulegra lagi á líkamanum, þeim veitum við því meiri sæmd, og þeim sem við blygðumst okkar fyrir sýnum við því meiri blygðunarsemi. 24 Þess þarfnast hinir ásjálegu limir okkar ekki. En Guð setti líkamann svo saman að hann gaf þeim sem síðri var því meiri sæmd 25 til þess að ekki yrði ágreiningur í líkamanum heldur skyldu limirnir bera sameiginlega umhyggju hver fyrir öðrum. 26 Og hvort heldur einn limur þjáist, þá þjást allir limirnir með honum eða einn limur er í hávegum hafður samgleðjast allir limirnir honum.