Réttlátur dómur Guðs
1 Því hefur þú, maður, sem dæmir, enga afsökun hver sem þú ert. Um leið og þú dæmir annan dæmir þú sjálfan þig því að þú, sem dæmir, fremur hið sama. 2 Við vitum að Guð dæmir þá með réttu sem slíkt fremja. 3 Hyggur þú, maður, sem dæmir þá er þvílíkt fremja og gerir sjálfur hið sama, að þú munir umflýja dóm Guðs? 4 Eða forsmáir þú hans miklu gæsku, þolinmæði hans og biðlund og lætur þér ekki skiljast að gæska Guðs vill leiða þig til afturhvarfs? 5 En þverúð þín og fráhvarf hjartans frá Guði safnar að sjálfum þér reiði sem mætir þér á degi reiðinnar þegar Guð birtir réttlátan dóm sinn. 6 Hann mun gjalda sérhverjum eftir verkum hans, 7 þeim eilíft líf sem leita vegsemdar, heiðurs og ódauðleika með staðfestu sinni í góðri breytni 8 en reiði og óvild hinum sem stjórnast af eigingirni, óhlýðnast sannleikanum en þjóna ranglætinu. 9 Þrenging og angist kemur yfir sérhverja mannssál er illt fremur, yfir Gyðinginn fyrst en einnig alla aðra. 10 En vegsemd, heiður og frið hlýtur hver sá er gerir hið góða, Gyðingurinn fyrst en Grikkinn líka. 11 Því að Guð mismunar ekki mönnum.