1Er hlutskipti mannsins á jörðinni ekki herþjónusta
og ævidagar hans eins og málaliða?
2Hann er eins og þræll sem þráir skugga,
daglaunamaður sem bíður launa sinna.
3Þannig tók ég mæðumánuði í arf
og fékk þjakandi nætur að hlutskipti.
4Þegar ég leggst til svefns hugsa ég:
„Hvenær kemst ég á fætur?“
En kvöldið er langt og óeirð kvelur mig uns dagur rennur.
5Líkami minn er þakinn ormum og hrúðri,
húð mín skorpin og rifin.
6Hraðar en skytta vefarans þjóta dagar mínir
og hverfa án vonar.
7Mundu að ævi mín er andgustur,
aldrei framar mun auga mitt líta gæfu.
8Auga, sem nú horfir á mig, mun ekki sjá mig framar,
augu þín leita mín en ég verð horfinn.
9Ský hverfur, líður burt,
eins kemur enginn upp aftur sem fer niður í undirheima.
10Hann kemur ekki framar í hús sitt
og staður hans þekkir hann ekki framar.
11Ég mun ekki hefta tungu mína,
í angist minni vil ég tala,
í beiskju minni vil ég kveina.
12Er ég haf eða sæskrímsli
þar sem þú setur vörð yfir mig?
13Ef ég hugsa: „Rúmið huggar mig,
hvíla mín ber þjáninguna með mér,“
14þá hrellir þú mig með draumum,
skelfir mig með sýnum
15svo að ég vil heldur kafna,
kýs dauðann fremur en þessa þjáningu.
16Ég er uppgefinn, ég vil ekki lifa lengur,
slepptu mér, dagar mínir eru sem vindgustur.