Í Getsemane

32 Þeir koma til staðar er heitir Getsemane og Jesús segir við lærisveina sína: „Setjist hér meðan ég biðst fyrir.“ 33Hann tók með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes. Og nú setti að honum ógn og angist. 34 Hann segir við þá: „Sál mín er hrygg allt til dauða. Bíðið hér og vakið.“
35 Þá gekk Jesús lítið eitt áfram, féll til jarðar og bað að þessi stund færi fram hjá sér ef þess væri kostur. 36 Hann sagði: „Abba, faðir! allt megnar þú. Tak þennan kaleik frá mér! Þó ekki sem ég vil heldur sem þú vilt.“
37 Jesús kemur aftur og finnur þá sofandi. Þá sagði hann við Pétur: „Símon, sefur þú? Gastu ekki vakað eina stund? 38 Vakið og biðjið svo að þið fallið ekki í freistni. Andinn er reiðubúinn en holdið veikt.“
39 Aftur vék Jesús brott og baðst fyrir með sömu orðum. 40 Þegar hann kom aftur fann hann þá enn sofandi því drungi var á augum þeirra. Og ekki vissu þeir hvað þeir ættu að segja við hann.
41 Í þriðja sinn kom hann og sagði við þá: „Sofið þið enn og hvílist? Nú er nóg. Stundin er komin. Mannssonurinn er framseldur í hendur syndugra manna. 42 Standið upp, förum! Sá er í nánd er mig svíkur.“