1 Drottinn sagði við Móse: „Högg þér tvær steintöflur eins og hinar fyrri. Ég mun rita á þessar töflur orðin sem stóðu á fyrri töflunum sem þú molaðir sundur. 2 Vertu tilbúinn á morgun. Þá skaltu ganga árla upp á Sínaífjall og staðnæmast hjá mér þar á fjallstindinum. 3 Enginn annar maður má koma upp með þér og enginn maður má sjást nokkurs staðar á fjallinu. Sauðfé og naut mega hvergi vera á beit í fjallshlíðinni.“
4 Móse hjó tvær steintöflur eins og hinar fyrri. Hann var snemma á fótum morguninn eftir og gekk upp á Sínaífjall eins og Drottinn hafði boðið honum og hélt á báðum steintöflunum. 5 Drottinn steig niður í skýi og nam staðar þar hjá Móse. Hann hrópaði nafn Drottins. 6 Drottinn gekk fram hjá honum og hrópaði: „Drottinn, Drottinn er miskunnsamur og náðugur Guð, seinn til reiði, gæskuríkur og trúfastur. 7 Hann sýnir þúsundum gæsku, fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir en lætur hinum seka ekki óhegnt heldur lætur afbrot feðranna bitna á börnum og barnabörnum í þriðja og fjórða lið.“
8 Móse lét sig þegar í stað falla til jarðar 9 og sagði: „Hafi ég fundið náð fyrir augum þínum, Drottinn, komdu þá með okkur, Drottinn. Þótt þetta sé harðsvíruð þjóð, fyrirgefðu okkur sekt okkar og syndir og gerðu okkur að eign þinni.“