Köllun Móse

1 Móse gerðist fjárhirðir hjá tengdaföður sínum, Jetró, presti í Midían. Einu sinni rak hann féð langt inn í eyðimörkina og kom að Hóreb, fjalli Guðs. 2 Þá birtist honum engill Guðs í eldsloga sem stóð upp af þyrnirunna. Hann sá að runninn stóð í ljósum logum en brann ekki. 3 Móse hugsaði: „Ég verð að ganga nær og virða fyrir mér þessa mikilfenglegu sýn. Hvers vegna brennur runninn ekki?“
4 Þegar Drottinn sá að hann gekk nær til að virða þetta fyrir sér kallaði Guð til hans úr miðjum runnanum og sagði: „Móse, Móse.“ Hann svaraði: „Hér er ég.“ 5 Drottinn sagði: „Komdu ekki nær, drag skó þína af fótum þér því að staðurinn, sem þú stendur á, er heilög jörð.“ 6 Og hann bætti við: „Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.“ Þá huldi Móse andlit sitt því að hann óttaðist að líta Guð.
7 Þá sagði Drottinn: „Ég hef séð eymd þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt kvein hennar undan þeim sem þrælka hana. Já, ég þekki þjáningu hennar. 8 Ég er kominn niður til að bjarga henni úr greipum Egypta og leiða hana úr þessu landi og upp til lands sem er gott og víðlent, til lands sem flýtur í mjólk og hunangi, til landsvæðis Kanverja, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta. 9 En nú er kvein Ísraelsmanna komið til mín og ég hef einnig séð hvernig Egyptar kúga þá. 10 Farðu nú af stað. Ég sendi þig til faraós. Leiddu þjóð mína, Ísraelsmenn, út úr Egyptalandi.“