Skyldur hjóna
21 Sýnið Kristi lotningu og hvert öðru auðsveipni: 22 konurnar eiginmönnum sínum eins og Drottni. 23 Því að maðurinn er höfuð konunnar eins og Kristur er höfuð og frelsari kirkjunnar, líkama síns. 24 En eins og kirkjan lýtur Kristi, þannig lúti og konurnar eiginmönnum sínum í öllu.
25 Karlmenn, elskið konur ykkar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana 26 til þess að helga hana með orðinu og hreinsa hana í vatnslauginni. 27 Hann vildi leiða kirkjuna fram fyrir sig í dýrð án þess hún hefði blett eða hrukku né neitt slíkt. Heilög skyldi hún og lýtalaus. 28 Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá sem elskar konu sína elskar sjálfan sig. 29 Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold heldur elur hann það og annast eins og Kristur kirkjuna 30 því við erum limir á líkama hans.
31 „Þess vegna skal maður yfirgefa föður og móður og búa við eiginkonu sína og munu þau tvö verða einn maður.“ 32 Þetta er mikill leyndardómur. Ég hef í huga Krist og kirkjuna. 33 En sem sagt, hver og einn skal elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig en konan beri lotningu fyrir manni sínum.