Hið ytra og innra

1 Nú safnast að Jesú farísear og nokkrir fræðimenn, komnir frá Jerúsalem. 2 Þeir sáu að sumir lærisveina hans neyttu matar með vanhelgum, það er óþvegnum, höndum. 3 En farísear, og reyndar Gyðingar allir, eta ekki nema þeir þvoi hendur sínar og fylgja þannig erfðavenju[ forfeðra sinna. 4 Og ekki neyta þeir matar þegar þeir koma frá torgi nema þeir hreinsi sig áður. Þeir fara einnig eftir mörgum öðrum fyrirmælum sem þeim hefur verið kennt, svo sem að hreinsa bikara, könnur og eirkatla.
5 Farísearnir og fræðimennirnir spyrja hann: „Hvers vegna fylgja lærisveinar þínir ekki erfðavenju forfeðranna heldur neyta matar með vanhelgum höndum?“
6 Jesús svarar þeim: „Sannspár var Jesaja um ykkur hræsnara þar sem ritað er:
Þessir menn heiðra mig með vörunum
en hjarta þeirra er langt frá mér.
7Til einskis dýrka þeir mig
því að þeir kenna það eitt sem menn hafa samið.

8 Þið hafnið boðum Guðs en haldið erfikenning manna.“
9 Enn sagði Jesús við þá: „Listavel gerið þið að engu boðorð Guðs svo þið getið rækt erfikenning ykkar. 10 Móse sagði: Heiðra föður þinn og móður þína, og: Hver sem formælir föður eða móður skal deyja. 11 En þið segið: Ef maður segir við föður sinn eða móður: Það sem ég hefði átt að styrkja þig með er korban, ég gef það til musterisins, 12 þá leyfið þið honum ekki framar að gera neitt fyrir föður sinn eða móður. 13 Þannig látið þið erfikenning ykkar, sem þið fylgið, ógilda orð Guðs. Og margt annað gerið þið þessu líkt.“