1. kafli

(Hann)

15Hve fögur ertu, ástin mín,
hve fögur,
og augu þín dúfur.

(Hún)

16Hve yndislegur ertu, elskhugi minn,
hve fagur,
og hvíla okkar iðjagræn,
17sedrustrén máttarviðir húss okkar
og kýprustrén þilviðirnir.

2. kafli

1Ég er rós í Saron,
lilja í dölunum.

(Hann)

2Sem lilja meðal þyrna
er ástin mín meðal meyjanna.

(Hún)

3Sem eplatré í kjarrviði
ber elskhugi minn af sveinunum.
Í skugga hans uni ég
og ávextir hans eru gómsætir.
4Hann leiddi mig í veisluskála
og tákn ástar hans var yfir mér.
5Nærið mig á rúsínukökum,
styrkið mig með eplum,
ég er máttvana af ást.
6Vinstri hönd þín undir höfði mér,
hin hægri faðmi mig.
7Ég særi yður, Jerúsalemdætur,
við dádýrin, við hindirnar á völlunum:
truflið ekki, vekið ekki ástina
fyrr en hún sjálf vill.