13 Nú fóru páskar Gyðinga í hönd og Jesús hélt upp til Jerúsalem. 14 Þar sá hann í helgidóminum þá er seldu naut, sauði og dúfur og víxlarana sem sátu þar. 15 Þá gerði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra 16 og við dúfnasalana sagði hann: „Burt með þetta héðan. Gerið ekki hús föður míns að sölubúð.“ 17 Lærisveinum hans kom í hug að ritað er: „Vandlæting vegna húss þíns mun tæra mig upp.“
18 Ráðamenn Gyðinga[ sögðu þá við hann: „Hvaða tákn getur þú sýnt okkur um það að þú megir gera þetta?“
19 Jesús svaraði þeim: „Brjótið þetta musteri og ég skal reisa það á þrem dögum.“
20 Þá sögðu þeir:[ „Þetta musteri hefur verið fjörutíu og sex ár í smíðum og þú ætlar að reisa það á þrem dögum!“
21 En Jesús var að tala um musteri líkama síns. 22 Þegar hann var risinn upp frá dauðum minntust lærisveinar hans að hann hafði sagt þetta, og þeir trúðu ritningunni og orðinu sem Jesús hafði talað.