Hin eina fórn

1 Lögmálið geymir aðeins skugga hins góða sem er í vændum, ekki skýra mynd þess. Þær sömu fórnir sem ár eftir ár eru bornar fram geta því aldrei gert þá fullkomna til frambúðar sem ganga fram fyrir Guð. 2 Hefðu ekki dýrkendur Guðs þá annars hætt að fórna ef þeir hefðu hreinsast í eitt skipti fyrir öll og væru sér ekki framar meðvitandi um synd? 3 En með þessum fórnum er minnt á syndirnar ár hvert. 4 Því að blóð nauta og hafra getur með engu móti numið burt syndir.
5 Því er það að Kristur segir þegar hann kemur í heiminn:
Fórn og gjafir hefur þú eigi viljað
en líkama hefur þú búið mér.
6Brennifórnir og syndafórnir geðjuðust þér ekki.
7Þá sagði ég: „Sjá, ég er kominn til að gera vilja þinn, Guð minn,
eins og ritað er í bókinni um mig.“

8 Fyrst segir hann: „Fórnir og gjafir og brennifórnir og syndafórnir hefur þú eigi viljað og eigi geðjaðist þér að þeim.“ En það eru einmitt þær sem fram eru bornar samkvæmt lögmálinu. 9 Síðan segir hann: „Sjá, ég er kominn til að gera vilja þinn.“ Hann afnemur hið fyrra og staðfestir hið síðara. 10 Þannig gerði hann það sem Guð vildi og þess vegna erum við helguð orðin að hann fórnaði sjálfum sér í eitt skipti fyrir öll.