1 Við vitum að þótt jarðnesk tjaldbúð okkar verði rifin niður þá höfum við hús frá Guði, eilíft hús á himnum sem eigi er með höndum gert. 2 Á meðan andvörpum við og þráum að íklæðast húsi okkar frá himnum. 3 Þegar við íklæðumst því munum við ekki standa uppi nakin. 4 En á meðan við erum í tjaldbúðinni stynjum við mædd. Við viljum ekki afklæðast forgengilegum líkama okkar heldur íklæðast óforgengilegum líkama til þess að dauðleg tilvera okkar umbreytist og verði eilíf. 5 En það er Guð sem er að verki í okkur og gerir okkur þetta fært og hann hefur gefið okkur anda sinn sem tryggingu.
6 Ég er því ávallt hughraustur þótt ég viti að meðan ég lifi á jörðinni er ég að heiman frá Drottni 7 því að við lifum í trú án þess að sjá. 8 Já, ég er hughraustur og mig langar öllu fremur til að hverfa burt úr líkamanum og vera heima hjá Drottni. 9 Þess vegna kosta ég kapps um, hvort sem ég er heima eða að heiman, að vera honum þóknanlegur. 10 Því að öllum ber okkur að birtast fyrir dómstóli Krists til þess að sérhver fái það endurgoldið sem hann hefur aðhafst í lifanda lífi, hvort sem það er gott eða illt.