Páskahátíðin

1 Gæt þess að halda Drottni, Guði þínum, páska í abíbmánuði. Það var nótt eina í abíbmánuði að Drottinn, Guð þinn, leiddi þig út úr Egyptalandi. 2 Þú skalt slátra Drottni, Guði þínum, fórnardýrum páskanna, sauðum og nautum, á staðnum sem Drottinn mun velja til að láta nafn sitt búa þar. 3 Þú mátt ekki eta sýrt brauð með fórninni heldur skalt þú eta ósýrt brauð í sjö daga, neyðarbrauð, því að þú fórst í flýti frá Egyptalandi, svo að þú minnist brottfarardags þíns frá Egyptalandi alla ævidaga þína. 4 Ekki má súrdeig sjást neins staðar á landi þínu í sjö daga og ekkert af því kjöti, sem þú fórnar að kvöldi fyrsta dagsins, má verða eftir til næsta morguns.
5 Þú mátt ekki slátra fórnardýri páskanna hvar sem er í þeim borgum sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér 6 heldur aðeins á staðnum sem Drottinn, Guð þinn, mun velja til að láta nafn sitt búa þar. Þar skaltu slátra fórnardýri páskanna um kvöldið, við sólarlag, á sömu stund og þú fórst út úr Egyptalandi.
7 Þú skalt sjóða kjöt fórnardýrs páskanna og neyta þess á þeim stað sem Drottinn, Guð þinn, mun velja sér. Morguninn eftir skaltu halda aftur til tjalda þinna.