12 Í þessu er enginn munur á Gyðingum og Grikkjum. Hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla sem ákalla hann 13 því að „hver sem ákallar nafn Drottins verður hólpinn“.
14 En hvernig eiga menn að geta ákallað þann sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra án þess að einhver prédiki? 15 Og hver getur prédikað nema hann sé sendur? Svo er og ritað: „Hversu fagurt er fótatak þeirra sem boða fagnaðarerindið um hið góða.“
16 En ekki tóku allir við fagnaðarerindinu. Jesaja segir: „Drottinn, hver trúði því sem við boðuðum?“ 17 Trúin kemur þannig af því að heyra. Og það sem heyrt er byggist á orðum Krists.
18 En ég spyr: Hafa þeir ekki heyrt? Jú, vissulega, „boðskapur þeirra hefur borist út um alla jörð og orð þeirra til endimarka heimsbyggðarinnar“.
19 Þá spyr ég: Skildi Ísrael það ekki? Fyrstur segir Móse: „Vekja vil ég ykkur til afbrýði gegn þjóð sem er ekki þjóð, egna vil ég ykkur til reiði gegn óviturri þjóð.“
20 Og Jesaja er svo djarfur að segja: „Ég hef látið þá finna mig sem leituðu mín ekki. Ég er orðinn augljós þeim sem spurðu ekki að mér.“ 21 En við Ísrael segir hann: „Allan daginn breiddi ég út faðminn móti óhlýðnum og þverbrotnum lýð.“