1 Drottinn sagði við Móse: 2 „Helga mér alla frumburði. Hvað eina sem fyrst opnar móðurlíf á meðal Ísraelsmanna er mitt, bæði hjá mönnum og skepnum.“ …

11 Þegar Drottinn leiðir þig inn í land Kanverja, eins og hann hefur heitið þér og feðrum þínum, og gefur þér það 12skaltu færa Drottni til eignar allt sem fyrst opnar móðurlíf. Allir frumburðir þíns búfjár eru eign Drottins séu þeir karlkyns. 13 Sérhvern frumburð asna getur þú leyst með lambi en ef þú leysir hann ekki skaltu hálsbrjóta hann. Þú skalt leysa sérhvern frumburð á meðal sona þinna. 14 Ef sonur þinn spyr þig síðar og segir: Hvað merkir þetta? skaltu svara honum: Drottinn leiddi okkur með máttugri hendi út úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. 15 Þegar faraó forhertist gegn því að sleppa okkur deyddi Drottinn alla frumburði í Egyptalandi, bæði frumburði manna og skepna. Þess vegna færi ég Drottni sem sláturfórn allt karlkyns sem fyrst opnar móðurlíf. En alla frumburði á meðal sona minna leysi ég. 16 Þetta skal verða tákn á höndum þínum og merki á milli augna þinna því að Drottinn leiddi okkur með máttugri hendi út úr Egyptalandi.“