23 Jesús svaraði þeim: „Stundin er komin að dýrð Mannssonarins verði opinber. 24 Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt. 25 Sá sem elskar líf sitt glatar því en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi mun varðveita það til eilífs lífs. 26 Sá sem þjónar mér fylgi mér eftir og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér mun faðirinn heiðra.
27 Nú er sál mín skelfd og hvað á ég að gera, á ég að segja: Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, ég er kominn til þess að mæta þessari stundu: 28 Faðir, ger nafn þitt dýrlegt!“
Þá kom rödd af himni: „Ég hef gert það dýrlegt og mun enn gera það dýrlegt.“
29 Mannfjöldinn, sem hjá stóð og hlýddi á, sagði að þruma hefði riðið yfir. En aðrir sögðu: „Engill var að tala við hann.“
30 Jesús svaraði: „Þessi rödd kom ekki mín vegna heldur yðar vegna. 31 Nú gengur dómur yfir þennan heim. Nú skal höfðingja þessa heims út kastað. 32 Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu mun ég draga alla til mín.“ 33 Þetta sagði hann til að gefa til kynna með hvaða hætti hann ætti að deyja.
34 Mannfjöldinn svaraði honum: „Lögmálið segir okkur að Kristur muni verða til eilífðar. Hvernig getur þú sagt að Mannssonurinn eigi að verða upp hafinn? Hver er þessi Mannssonur?“
35 Þá sagði Jesús: „Skamma stund er ljósið enn á meðal yðar. Gangið meðan þér hafið ljósið svo að myrkrið hremmi yður ekki. Sá sem gengur í myrkri veit ekki hvert hann fer. 36 Trúið á ljósið meðan þér hafið ljósið svo að þér verðið börn ljóssins.“
Þetta mælti Jesús, fór burt og duldist.