Jerúsalem hughreyst

1Huggið, huggið lýð minn,
segir Guð yðar.
2Hughreystið Jerúsalem
og boðið henni
að áþján hennar sé á enda,
að sekt hennar sé goldin,
að hún hafi fengið tvöfalt af hendi Drottins
fyrir allar syndir sínar.
3Heyr, kallað er:
„Greiðið Drottni veg um eyðimörkina,
ryðjið Guði vorum beina braut í auðninni,
4sérhver dalur skal hækka,
hvert fjall og háls lækka.
Hólar verði að jafnsléttu
og hamrar að dalagrundum.
5Þá mun dýrð Drottins birtast
og allt hold sjá það samtímis
því að Drottinn hefur boðað það.“
6Einhver segir: „Kalla þú,“
og ég spyr: „Hvað á ég að kalla?“
„Allt hold er gras
og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins.
7Grasið visnar, blómin fölna
þegar Drottinn andar á þau.
Sannlega eru mennirnir gras.
8Grasið visnar, blómin fölna
en orð Guðs vors varir að eilífu.“