14 Þessar þjóðir, sem þú hrekur burt, hafa hlýtt skýjaspámönnum og þeim sem lesa úr hlutkesti en Drottinn, Guð þinn, hefur ekki ætlað þér slíkt.
15 Spámann slíkan sem ég er mun Drottinn, Guð þinn, láta fram koma úr hópi ættbræðra þinna. Á hann skuluð þið hlýða. 16 Hann mun að öllu leyti uppfylla það sem þú baðst Drottin, Guð þinn, um á Hóreb daginn sem þið komuð þar saman og þú sagðir: „Lát mig ekki heyra aftur þrumuraust Drottins, Guðs míns, né líta aftur þennan mikla eld svo að ég deyi ekki.“ 17 Þá sagði Drottinn við mig: „Það sem þeir segja er rétt. 18 Fyrir þá mun ég láta fram koma spámann slíkan sem þú ert úr hópi bræðra þeirra. Ég mun leggja honum orð mín í munn og hann mun boða þeim allt sem ég býð honum. 19 Og hvern þann sem ekki hlýðir á þau orð, sem spámaðurinn flytur í mínu nafni, mun ég sjálfur draga til ábyrgðar.
20 En sá spámaður, sem dirfist að tala það í mínu nafni, sem ég hef ekki falið honum, eða flytur boðskap í nafni annarra guða, sá spámaður skal deyja.
21 Ef þú hugsar með sjálfum þér: Hvernig getum við þekkt það orð sem Drottinn hefur ekki talað? 22 skaltu vita: Þegar spámaður talar í nafni Drottins og það sem hann hefur sagt kemur hvorki fram né rætist, þá eru það orð sem Drottinn hefur ekki talað. Spámaðurinn hefur talað af ofdirfsku sinni, þú þarft ekki að óttast neitt sem hann segir.“