Þjónn Drottins
1Sjá þjón minn sem ég styð,
minn útvalda sem ég hef velþóknun á.
Ég legg anda minn yfir hann,
hann mun færa þjóðunum réttlæti.
2Hann kallar ekki og hrópar ekki
og lætur ekki heyra rödd sína á strætunum.
3Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur
og dapran hörkveik slekkur hann ekki.
Í trúfesti kemur hann rétti á.
4Hann þreytist ekki og gefst ekki upp
uns hann hefur grundvallað rétt á jörðu
og fjarlæg eylönd bíða boðskapar hans.
5Svo segir Drottinn Guð
sem skapaði himininn og þandi hann út,
sem breiddi út jörðina með öllu sem á henni vex,
sá er andardrátt gaf jarðarbúum
og lífsanda þeim sem á jörðinni ganga:
6Ég, Drottinn, kallaði þig í réttlæti
og held í hönd þína.
Ég móta þig,
geri þig að sáttmála fyrir þjóðirnar
og að ljósi fyrir lýðina
7til að opna hin blindu augu,
leiða fanga úr varðhaldi
og úr dýflissu þá sem í myrkri sitja.
8Ég er Drottinn, það er nafn mitt,
og dýrð mína gef ég ekki öðrum
né lof mitt úthöggnum líkneskjum.
9Sjá, hið fyrra er fram komið
en nú boða ég nýtt
og áður en það vex upp
kunngjöri ég það.