Nýr himinn, ný jörð

1 Og ég sá nýjan himin og nýja jörð því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið var ekki framar til. 2Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði er skartar fyrir manni sínum. 3 Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu er sagði: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. 4 Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“
5 Sá sem í hásætinu sat sagði: „Sjá, ég geri alla hluti nýja,“ og hann segir: „Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.“ 6 Og hann sagði við mig: „Það er fram komið. Ég er Alfa og Ómega,[ upphafið og endirinn. Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns. 7 Sá er sigrar mun erfa þetta og ég mun vera hans Guð og hann mun vera mitt barn. 8 En staður er búinn í díkinu sem logar af eldi og brennisteini hugdeigum og vantrúuðum, viðurstyggilegum og manndrápurum, frillulífismönnum og töframönnum, skurðgoðadýrkendum og öllum lygurum. Það er hinn annar dauði.“