Lifandi von
3 Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum 4 og veitt oss óforgengilega, flekklausa og ófölnandi arfleifð sem yður er geymd á himnum. 5 Kraftur Guðs varðveitir yður sem trúið til þess að þér öðlist hjálpræðið sem albúið bíður þess að opinberast á efsta degi.
6 Fagnið því þótt þið nú um skamma stund hafið orðið að hryggjast í margs konar raunum. 7 Það er til þess að trúfesti ykkar, langtum dýrmætari en forgengilegt gull, sem þó er reynt í eldi, geti orðið ykkur til lofs og dýrðar og heiðurs við opinberun Jesú Krists. 8 Þið hafið ekki séð hann en elskið hann þó. Þið hafið hann ekki nú fyrir augum ykkar en trúið samt á hann og fagnið með óumræðilegri og dýrlegri gleði 9 þegar þið eruð að ná takmarki trúar ykkar, frelsun sálna ykkar.