4. kafli

Endurkoma Drottins

13 Ekki vil ég, systkin,[ láta ykkur vera ókunnugt um þau sem sofnuð eru, til þess að þið séuð ekki hrygg eins og hin sem ekki eiga von. 14 Því að ef við trúum því að Jesús sé dáinn og upprisinn, þá mun Guð fyrir Jesú leiða ásamt honum fram þau sem sofnuð eru.
15 Því að það segi ég ykkur, og það er orð Drottins, að við, sem verðum eftir á lífi við komu Drottins, munum alls ekki fyrri verða en þau sem sofnuð eru. 16 Þegar Guð skipar fyrir, þegar raust erkiengilsins kveður við og básúna Guðs hljómar, mun sjálfur Drottinn stíga niður af himni og þau sem dóu í trú á Krist munu fyrst upp rísa. 17 Þá munum við sem eftir lifum verða hrifin burt ásamt þeim í skýjum til fundar við Drottin í loftinu. Og síðan munum við vera með Drottni alla tíma. 18 Uppörvið því hvert annað með þessum orðum.

5. kafli

Börn ljóssins og dagsins

1 En um tíma og tíðir hafið þið, bræður og systur,[ ekki þörf á að ykkur sé skrifað. 2 Þið vitið það sjálf gjörla að dagur Drottins kemur sem þjófur á nóttu. 3 Þegar menn segja: „Friður og engin hætta,“ þá kemur snögglega tortíming yfir þá eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast. 4 En þið, systkin,[ eruð ekki í myrkri svo að dagurinn geti komið yfir ykkur sem þjófur. 5 Þið eruð öll börn ljóssins og börn dagsins. Við heyrum ekki nóttunni til eða myrkrinu. 6 Sofum því ekki eins og aðrir heldur vökum og verum allsgáð. 7 Því að þau sem sofa, sofa um nætur og þau sem drekka sig drukkin, drekka um nætur. 8 En við sem heyrum deginum til skulum vera allsgáð, klædd trú og kærleika sem brynju og voninni um frelsun sem hjálmi. 9 Guð hefur ekki ætlað okkur að verða reiðinni að bráð heldur að öðlast sáluhjálp sakir Drottins vors Jesú Krists. 10 Hann dó fyrir okkur til þess að við mættum lifa með honum, hvort sem við vökum eða sofum. 11 Hvetjið því og uppbyggið hvert annað, eins og þið og gerið.