9 „Ég stofna nú til sáttmála við ykkur og niðja ykkar 10 og allar lifandi skepnur sem með ykkur eru, bæði við fugla, búfé og öll dýr merkurinnar með ykkur, við allt sem út úr örkinni gekk, það er öll dýr merkurinnar. 11 Ég stofna til sáttmála við ykkur: Aldrei framar skal allt hold tortímast í vatnsflóði. Aldrei framar mun flóð koma og eyða jörðina.“
12 Og Guð sagði: „Þetta er tákn sáttmálans fyrir allar ókomnar aldir sem ég stofna til milli mín og ykkar og allra lifandi skepna sem hjá ykkur eru. 13 Boga minn hef ég sett í skýin. Hann skal vera tákn sáttmálans milli mín og jarðarinnar. 14 Þegar ég færi ský yfir jörðina og boginn sést í skýjunum 15 mun ég minnast sáttmálans milli mín og ykkar og allra lifandi skepna, alls holds, og aldrei framar skal vatnið verða að flóði sem tortímir öllu lífi. 16 Hverju sinni sem boginn stendur í skýjunum mun ég sjá hann og minnast hins eilífa sáttmála milli Guðs og allra lifandi vera, alls sem lifir á jörðinni.“
17 Og Guð sagði við Nóa: „Þetta er tákn sáttmálans sem ég hef stofnað til milli mín og alls sem lifir á jörðinni.“