Á Möltu

1 Nú sem við vorum heilir á land komnir fengum við að vita að eyjan hét Malta. 2 Eyjarskeggjar sýndu okkur einstaka góðmennsku. Þeir kyntu bál og hlynntu að okkur öllum en kalt var í veðri og farið að rigna. 3 Páll tók saman hrísvöndul og lagði á eldinn. Skreið þá út naðra undan hitanum og festi sig á hönd hans. 4 Þegar eyjarskeggjar sáu kvikindið hanga á hendi hans sögðu þeir hver við annan: „Það er víst að þessi maður er manndrápari fyrst refsinornin lofar honum ekki að lifa þótt hann hafi bjargast úr sjónum.“ 5 En hann hristi kvikindið af sér í eldinn og sakaði ekki. 6 Þeir bjuggust við að hann mundi bólgna upp eða detta sviplega dauður niður. En þá er þeir höfðu beðið þess lengi og sáu að honum varð ekkert meint af, skiptu þeir um og sögðu hann guð vera.
7 Í grennd við stað þennan átti búgarð æðsti maður á eynni, Públíus að nafni. Hann tók við okkur og hélt okkur í góðu yfirlæti þrjá daga. 8 Svo vildi til að faðir Públíusar lá sjúkur með hitaköstum og blóðsótt. Páll gekk inn til hans, baðst fyrir, lagði hendur yfir hann og læknaði hann. 9 Eftir þetta komu aðrir þeir er sjúkir voru á eynni og voru læknaðir. 10 Höfðu þeir okkur í hávegum og er við skyldum sigla gáfu þeir okkur allt sem við þurftum til fararinnar.

Páll kemur til Rómar

11 Að liðnum þrem mánuðum lögðum við til hafs á skipi frá Alexandríu sem legið hafði við eyna um veturinn og bar merki Tvíburanna. 12 Við tókum höfn í Sýrakúsu og dvöldumst þar þrjá daga. 13 Þaðan sigldum við í sveig og komum til Regíum. Að degi liðnum fengum við sunnanvind og komum á öðrum degi til Púteólí. 14 Þar hittum við trúsystkin[ og báðu þau okkur að dveljast hjá sér í viku. Síðan héldum við til Rómar. 15 Kristnir menn[ þar fréttu um okkur og komu til móts við okkur allt til Appíusartorgs og Þríbúða. Þegar Páll sá þá gerði hann Guði þakkir og hresstist í huga.
16 Er við vorum komnir til Rómar var Páli leyft að búa út af fyrir sig með hermanni þeim sem gætti hans.