27 Á miðnætti, þegar við höfðum hrakist um Adríahaf í hálfan mánuð, þóttust skipverjar verða þess varir að land væri í nánd. 28 Þeir vörpuðu grunnsökku og reyndist dýpið tuttugu faðmar. Aftur vörpuðu þeir grunnsökku litlu síðar og reyndist dýpið þá fimmtán faðmar. 29 Þeir óttuðust að okkur kynni að bera upp í kletta og köstuðu því fjórum akkerum úr skutnum og þráðu nú mest að dagur rynni. 30 En hásetarnir reyndu að strjúka af skipinu. Þeir settu bátinn útbyrðis og þóttust vera að færa út akkeri úr framstafni. 31 Þá sagði Páll við hundraðshöfðingjann og hermennina: „Ef þessir menn eru ekki kyrrir í skipinu getið þið ekki bjargast.“ 32 Hermennirnir hjuggu þá festar bátsins og létu hann fara.
33 Undir dögun hvatti Páll alla til að neyta matar og sagði: „Þið hafið nú þraukað hálfan mánuð fastandi og matarlausir. 34 Það er nú mitt ráð að þið matist. Þess þurfið þið ef þið ætlið að bjargast. En enginn ykkar mun einu hári týna af höfði sér.“ 35 Að svo mæltu tók hann brauð, gerði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta. 36 Urðu nú allir hressari og fóru líka að matast. 37 Alls vorum við á skipinu tvö hundruð sjötíu og sex manns. 38 Þá er þeir höfðu etið sig metta léttu þeir á skipinu með því að kasta kornfarminum í sjóinn.

Skipbrot

39 Þegar dagur rann kenndu þeir ekki landið en greindu vík eina með sandfjöru. Varð það ráð þeirra að reyna að hleypa þar upp skipinu. 40 Þeir losuðu akkerin og létu þau eftir í sjónum, leystu um leið stýrisböndin, undu upp framseglið og létu berast undan vindi til strandar. 41 Þeir lentu á rifi, skipið strandaði, stefnið festist og hrærðist hvergi en skuturinn tók að liðast sundur í hafrótinu. 42 Hermennirnir ætluðu að drepa bandingjana svo að enginn þeirra kæmist undan á sundi. 43 En hundraðshöfðinginn vildi forða Páli og kom í veg fyrir ráðagerð þeirra. Bauð hann að þeir sem syndir væru skyldu fyrstir varpa sér út og leita til lands 44 en hinir síðan ýmist á plönkum eða braki úr skipinu. Þannig komust allir heilir til lands.