19 Fyrir því gerðist ég, Agrippa konungur, eigi óhlýðinn hinni himnesku vitrun 20 heldur boðaði ég fyrst þeim í Damaskus og í Jerúsalem, síðan um alla Júdeubyggð og heiðingjunum að taka sinnaskiptum og snúa sér til Guðs og sýna það í verki. 21 Sakir þessa gripu Gyðingar mig í helgidóminum og reyndu að ráða mér bana. 22 En Guð hefur hjálpað mér og því stend ég allt til þessa dags og vitna bæði fyrir háum og lágum. Mæli ég ekki annað en það sem bæði spámennirnir og Móse hafa sagt að verða mundi, 23 að Kristur ætti að líða og fyrstur rísa upp frá dauðum og boða bæði Gyðingum og heiðingjunum ljósið.“

Páll skírskotar til Agrippu

24 Þegar Páll var hér kominn í vörn sinni segir Festus hárri raustu: „Óður ert þú, Páll. Þitt mikla bókvit gerir þig óðan.“
25 Páll svaraði: „Ekki er ég óður, göfugi Festus, heldur mæli ég sannleiks orð af fullu viti. 26 Konungur kann skil á þessu og við hann tala ég af einurð. Eigi ætla ég að honum hafi dulist neitt af þessu enda hefur það ekki gerst í neinum afkima. 27 Trúir þú, Agrippa konungur, spámönnunum? Ég veit að þú gerir það.“
28 Þá sagði Agrippa við Pál: „Með litlu hyggur þú að geta gert mig kristinn.“ 29 En Páll sagði: „Þess bið ég Guð, hvort sem lengur dregst eða skemur, að ekki einungis þú, heldur og allir, sem til mín heyra í dag, verði slíkir sem ég er að frátöldum fjötrum mínum.“
30 Þá stóð konungur upp og landstjórinn, svo og Berníke og þeir er þar sátu með þeim. 31 Þegar þau voru farin sögðu þau sín á milli: „Þessi maður fremur ekkert sem varðar dauða eða fangelsi.“ 32 En Agrippa sagði við Festus: „Þennan mann hefði mátt láta lausan ef hann hefði ekki skotið máli sínu til keisarans.“