24. kafli

22 Felix, sem var vel kunnugt um veginn, frestaði nú málinu og mælti: „Þegar Lýsías hersveitarforingi kemur ofan hingað skal ég skera úr máli ykkar.“ 23 Hann bauð hundraðshöfðingjanum að hafa Pál í varðhaldi og varna engum félaga hans að vitja um hann.
24 Nokkrum dögum seinna kom Felix með eiginkonu sinni, Drúsillu. Hún var Gyðingur. Hann lét sækja Pál og hlýddi á mál hans um trúna á Krist Jesú. 25 En er hann ræddi um réttlæti, sjálfsögun og komandi dóm varð Felix skelkaður og mælti: „Far burt að sinni. Ég læt kalla þig þegar ég fæ tóm til.“ 26 Með fram gerði hann sér von um að Páll mundi gefa sér fé. Því var það að hann lét alloft sækja hann og átti tal við hann.
27 Þegar tvö ár voru liðin tók Porkíus Festus við landstjórn af Felix. Felix vildi koma sér vel við Gyðinga og lét því Pál eftir í haldi.

25. kafli

Páll skýtur máli sínu til keisarans

1 Þrem dögum eftir að Festus hafði tekið við umdæmi sínu fór hann frá Sesareu upp til Jerúsalem. 2 Æðstu prestarnir og fyrirmenn Gyðinga báru þá sakir á Pál fyrir honum og báðu hann 3 að veita sér að málum gegn honum og sýna sér þá velvild að senda hann til Jerúsalem. En þeir hugðust búa honum fyrirsát og vega hann á leiðinni. 4 Festus svaraði að Páll væri í varðhaldi í Sesareu en sjálfur færi hann bráðlega þangað. 5 „Látið því,“ sagði hann, „ráðamenn ykkar verða mér samferða ofan eftir og lögsækja manninn ef hann er um eitthvað sekur.“
6 Festus dvaldist þar ekki lengur en í átta daga eða tíu. Síðan fór hann ofan til Sesareu. Daginn eftir settist hann á dómstólinn og bauð að leiða Pál fram. 7 Þegar hann kom umkringdu hann Gyðingar þeir sem komnir voru ofan frá Jerúsalem og báru á hann margar þungar sakir sem þeir gátu ekki sannað. 8 En Páll varði sig og sagði: „Ekkert hef ég brotið, hvorki gegn lögmáli Gyðinga, helgidóminum né keisaranum.“
9 Festus vildi koma sér vel við Gyðinga og mælti við Pál: „Vilt þú fara upp til Jerúsalem og hlíta þar dómi mínum í máli þessu?“
10 Páll svaraði: „Ég stend nú fyrir dómstóli keisarans og hér á ég að dæmast. Gyðingum hef ég ekkert rangt gert, það veistu fullvel. 11 Sé ég sekur og hafi framið eitthvað sem dauða sé vert, mæli ég mig ekki undan því að deyja. En ef ekkert er hæft í því sem þessir menn kæra mig um, á enginn með að selja mig þeim á vald. Ég skýt máli mínu til keisarans.“
12 Festus ræddi þá við ráðunauta sína og mælti síðan: „Til keisarans hefur þú skotið máli þínu, til keisarans skaltu fara.“