22. kafli

Í höndum hermanna

22 Allt að þessu orði hlýddu menn á hann en nú hófu þeir upp raust sína og hrópuðu: „Burt með slíkan mann af jörðinni! Eigi hæfir að hann lifi!“
23 Nú sem þeir æptu og vingsuðu klæðum sínum og þyrluðu ryki í loft upp 24 skipaði hersveitarforinginn að fara með hann inn í kastalann, hýða hann og kúga hann með því til sagna svo að hann kæmist að því fyrir hverja sök þeir gerðu slík óp að honum. 25 En þá er þeir strengdu hann undir höggin sagði Páll við hundraðshöfðingjann er hjá stóð: „Leyfist ykkur að húðstrýkja rómverskan mann og það án dóms og laga?“
26 Þegar hundraðshöfðinginn heyrði þetta fór hann til hersveitarforingjans, skýrði honum frá og sagði: „Hvað ert þú að gera? Maður þessi er rómverskur.“
27 Hersveitarforinginn kom þá og sagði við Pál: „Seg mér, ert þú rómverskur borgari?“
Páll sagði: „Já.“
28 Hersveitarforinginn sagði: „Fyrir ærið fé keypti ég þennan þegnrétt.“
En Páll sagði: „Ég er meira að segja með honum fæddur.“ 29 Þeir sem áttu að kúga hann til sagna viku nú jafnskjótt frá honum. Og hersveitarforinginn varð hræddur er hann varð þess vís að það var rómverskur maður sem hann hafði látið binda.

Páll fyrir ráðinu

30 Daginn eftir vildi hann ganga úr skugga um fyrir hvað Gyðingar kærðu hann, lét leysa hann og bauð að æðstu prestarnir og allt ráðið kæmi saman. Síðan kom hann ofan með Pál og leiddi hann fram fyrir þá.

23. kafli

1 En Páll hvessti augun á ráðið og mælti: „Góðir menn og bræður, ég hef þjónað Guði allt fram á þennan dag og hef að öllu leyti góða samvisku.“ 2 En Ananías æðsti prestur skipaði þeim er hjá stóðu að ljósta hann á munninn. 3Þá sagði Páll við hann: „Guð mun ljósta þig, kalkaði veggur. Hér situr þú til að dæma mig samkvæmt lögmálinu og skipar þó þvert ofan í lögmálið að slá mig.“ 4 Þeir sem hjá stóðu sögðu: „Smánar þú æðsta prest Guðs?“
5 Páll svaraði: „Ekki vissi ég, bræður, að hann væri æðsti prestur því ritað er: Þú skalt ekki formæla höfðingja þjóðar þinnar.“
6 Nú vissi Páll að sumir þeirra voru saddúkear en aðrir farísear og hann hrópaði upp í ráðinu: „Bræður, ég er farísei, af faríseum kominn. Ég er lögsóttur fyrir vonina um upprisu dauðra.“
7 Þegar hann sagði þetta varð deila milli farísea og saddúkea og þingheimur skiptist í flokka, 8 því að saddúkear segja að ekki sé til upprisa, englar né andar en farísear játa allt þetta. 9 Nú varð hróp mikið og nokkrir fræðimenn af flokki farísea risu upp og fullyrtu: „Við sjáum ekki að þessi maður hafi brotið af sér. Gæti ekki hugsast að andi hafi talað við hann eða engill?“
10 Deilan harðnaði og hersveitarforinginn fór að óttast að þeir ætluðu að slíta Pál í sundur. Því skipaði hann herliðinu að koma ofan, taka hann af þeim og færa hann inn í kastalann.
11 Nóttina eftir kom Drottinn til hans og sagði: „Vertu hughraustur! Svo sem þú hefur vitnað um mig í Jerúsalem eins ber þér og að vitna í Róm.“